Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 134/2012.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 17. september 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli Ar, nr. 134/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða barst kæra A, með bréfi, dags. 17. ágúst 2012. Í kærunni til úrskurðarnefndarinnar gagnrýnir kærandi að mismunandi reglur gildi um meðferð tekna atvinnuleitenda eftir því hvort þeir starfi sem launamenn eða sjálfstætt starfandi einstaklingar samhliða töku atvinnuleysisbóta. Telur hann að um sé að ræða mismunun sem sé óréttlát og brjóti gegn reglum um jafnræði og meðalhóf.

 

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 6. janúar 2012. Kærandi hefur tekið að sér verktakavinnu frá því hann hóf töku atvinnuleysisbóta og í samræmi við verklagsreglur Vinnumálstofnunar var kærandi afskráður þá daga sem vinnan fór fram. Kærandi var síðast afskráður 24. apríl 2012.

 

 

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. september 2012, vísar Vinnumálastofnun til þess að lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, geri greinarmun á því hvort umsækjandi um atvinnuleysistryggingar sé launamaður sbr. 3. gr. a, eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. gr. b, hvað varðar skilyrði fyrir töku atvinnuleysisbóta. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ástæða hafi þótt til að gera greinarmun á þessum hópum vegna eðlismunar á starfstengdum skilyrðum þeirra. Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 6. janúar 2012 og fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn. Kærandi hafi frá því að hann hóf töku atvinnuleysisbóta tekið að sér verktakavinnu og var hann afskráður þá daga sem vinnan fór fram í samræmi við lög um atvinnuleysistryggingar og verklagsreglur Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi síðast verið afskráður vegna verktakavinnu þann 24. apríl 2012.

 

 

Vinnumálastofnun tiltekur að það sé ljóst að verktakavinna sú sem kærandi hafi tekið að sér falli undir skilgreiningu laga um atvinnuleysistryggingar á sjálfstætt starfandi einstaklingum. Í IV. kafla laganna sé fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysisbótum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Samkvæmt f- og g-liðum 18. gr. laganna er eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysisbótum sjálfstætt starfandi einstaklinga að viðkomandi hafi stöðvað rekstur og leggi fram staðfestingu þess efnis, sbr. 20. og 21. gr. laganna. Vinnumálastofnun telji nægilegt í samræmi við 21. gr. laganna að umsækjendur skili staðfestingu á lokun launagreiðendaskrár frá ríkisskattstjóra. Vinnumálastofnun bendir einnig á að í 20. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi meðal annars fram að sjálfstætt starfandi einstaklingur teljist hafa stöðvað rekstur sinn hafi hann tilkynnt til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra að hann hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Vinnumálastofnun sé falið að meta hvort rekstri hafi sannarlega verið lokið með athugun á hreyfingum í virðisaukaskattskrá ríkisskattstjóra.

 

Vinnumálastofnun bendir á að það leiði af ofangreindum lagaákvæðum að óheimilt sé að stunda verktakavinnu og þiggja atvinnuleysisbætur samhliða. Þar af leiðandi hafi Vinnumálastofnun það verklag að afskrá atvinnuleitendur af atvinnuleysisskrá þann dag sem verktakavinna fer fram óháð lengd vinnunnar. Því skal atvinnuleitandi vera afskráður heilan dag þrátt fyrir að verktakavinna vari skemmur en 8 klst. Vinnumálastofnun tiltekur jafnframt að ekki sé heimilt að safna upp tímum vegna verktakavinnu til að fækka dögum sem atvinnuleitandi er skráður af atvinnuleysisbótaskrá. Annað gildir um atvinnuleitanda sem tekur að sér tilfallandi vinnu sem launamaður í skilningi 3. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Í slíkum tilfellum sé viðkomandi ekki skráður af atvinnuleysisskrá heldur eru tekjur vegna tilfallandi vinnu dregnar frá rétti atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta í samræmi við 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Vinnumálastofnun greinir frá því að þessi munur á verklagi stafi af þeim greinarmun sem gerður sé í lögum á launamönnum annars vegar og sjálfstætt starfandi einstaklingum hins vegar hvað varðar skilyrði þessara aðila fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta. Þannig sé það gert að skilyrði að atvinnuleitandi vinni ekki sem sjálfstætt starfandi einstaklingur samhliða töku atvinnuleysisbóta, sbr. f- og g-lið 18. gr., 20. gr. og 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Lögin geri atvinnuleitendum hins vegar kleift að vinna sem launamenn samhliða töku atvinnuleysisbóta með þeim takmörkunum sem kveðið er á um í 36. gr. laganna. Í 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að launamönnum er gert kleift að þiggja atvinnuleysisbætur samhliða hlutastarfi í minnkuðu starfshlutfalli. Í 22. gr. er sambærileg heimild fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga. Þar komi skýrt fram að ákvæðið eigi aðeins við í þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi ræður sig í starf sem launamaður. Hlutastarfsákvæði laga um atvinnuleysistryggingar eigi því ekki við þegar atvinnuleitandi tekur starfi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur.

 

Vinnumálastofnun tiltekur að við skráningu kæranda af atvinnuleysisskrá vegna verktakavinnu hafi verið byggt að lögum um atvinnuleysistryggingar og geti stofnunin því ekki fallist á með kæranda að þar sem annað fyrirkomulag eigi við um tilfallandi vinnu atvinnuleitanda hafi stofnunin brotið gegn jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. september 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 1. október 2012. Athugasemdir kæranda bárust í tölvubréfi, dags. 22. nóvember 2012.

 

Í athugasemdum sínum greinir kærandi frá því að hann telji að um misskilning sé að ræða í niðurstöðum sem hann hafi fengið 12. september 2012. Þar sé vitnað í 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um skilgreiningar á launamanni og sjálfstætt starfandi einstaklingi. Kærandi telur ljóst að hann sé launamaður í skilningi ákvæðisins þar sem hann hafi starfað sem framhaldsskólakennari í fullu starfi frá árinu 2004 til janúar 2012 og engin skil hafi verið á reiknuðu endurgjaldi eða tryggingagjaldi. Einnig sé vitnað í 20. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fram komi að sjálfstætt starfandi einstaklingur teljist hafa stöðvað rekstur ef hann hafi tilkynnt um það til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra. Vinnumálastofnun sé falið að meta hvort rekstri hafi sannanlega verið lokið með athugun á hreyfingum í virðisaukaskattsskrá ríkisskattstjóra. Kærandi telur að Vinnumálastofnun hafi ekki látið þessa athugun fara fram. Það sé ljóst að engar hreyfingar hafi átt sér stað þar sem hann hafi tilkynnt til launagreiðendaskrár um stöðvun rekstrar árið 2004.

 

 

 

 

Í bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til kæranda, dags. 12. ágúst 2013, er honum tilkynnt um töf á afgreiðslu máls hans vegna gríðarlegs málafjölda fyrir nefndinni.

 

2.

Niðurstaða

 

Í kæru, dags. 17. ágúst 2012, greinir kærandi eingöngu frá því að efni ákvörðunar kæru sé að mismunandi reglur gildi um einstaklinga eftir því hvort þeir séu launþegar eða verktakar. Í athugasemdum kæranda við greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 22. nóvember 2012, kemur fram að kærandi telur sig vera launþega. Þar sem efni kæru er óljóst innti úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kæranda eftir því hvaða ákvörðun hann væri að kæra til nefndarinnar, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda og rannsóknarreglu í símtali, dags. 6. september 2012. Af hálfu kæranda kom fram að hann telur að með tekjur sem hann hefur aflað samhliða atvinnuleysisbótum eigi að fara sem launatekjur en ekki vertakagreiðslur. Þá telur kærandi að ákvæði um mismunandi áhrif tekna atvinnuleitenda samhliða atvinnuleysisbótum á atvinnuleysisbæturnar eftir því hvort um sé að ræða tekjur sem launþegi eða tekjur sem verktaki brjóti gegn jafnræðis- og meðalhófsreglu.

 

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta 6. janúar 2012. Kærandi skrifaði undir yfirlýsingu um stöðvun reksturs skv. 1. mgr. 20. gr. laga um atvinnuleysistryggingar 3. apríl 2012 en þar kemur meðal annars fram að hann muni ekki taka að sér vertakavinnu samhliða atvinnuleysisbótum án undanfarandi tilkynningar til Vinnumálastofnunar. Samkvæmt gögnum málsins tók kærandi að sér vinnu eftir að hann hóf töku atvinnuleysisbóta og var farið með tekjurnar eins og um verktakavinnu væri að ræða skv. ákvæði b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og var kærandi afskráður þá daga sem vinnan fór fram, síðast 24. apríl 2012.

 


 

 

Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er hlutverk úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðs­aðgerða skriflega innan þriggja frá mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Kæra kæranda barst til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga 17. ágúst 2012 en líta verður svo á að kærandi hafi verið að kæra þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að afskrá hann síðast 24. apríl 2012. Kærufrestur, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, var því liðinn.

 

Í 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, kemur fram að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða ef veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða verður að telja að ekkert í gögnum málsins gefi til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Í þessu sambandi er vert að geta þess að úrskurðarnefndin hefur í fyrri úrskurðum sínum talið gildandi skipulag um skilyrði greiðslna atvinnuleysistrygginga til launamanna annars vegar og sjálfstætt starfandi einstaklinga hins vegar, samrýmast grundvallarreglum stjórnskipunarinnar og stjórnsýsluréttarins, sbr. til dæmis úrskurði nefndarinnar í málum nr. 87/2010 frá 20. desember 2010 og nr. 86/2010 frá 4. febrúar 2011.

Með hliðsjón af ofangreindu verður kæru þessari vísað frá.

 

 

 


 

 

Úrskurðarorð

 

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir            Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum